Útflutningsverðmæti fiskeldis aldrei meiri

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tók saman eftirfarandi upplýsingar úr nýjum tölum frá Hagstofunni.

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 1.347 milljónum króna í nóvember. Er hér um að ræða 38% aukningu í krónum talið frá nóvember 2017 þegar verðmætið nam 977 milljónum króna. Sé leiðrétt fyrir gengi krónunnar er aukningin þó ívið minni, en engu að síður veruleg, eða um rúm 20% þar sem gengi krónunnar var um 13% veikara í nóvember 2018 en sama mánuði 2017. Sjá má þróunina á útflutningsverðmæti á laxi, silungi og öðrum eldisafurðum í nóvember á ári hverju frá árinu 2010 á myndinni hér fyrir neðan, en þessar tölur birti Hagstofan nú í morgun.

Samdráttur á fyrstu 11 mánuðunum
Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2018 er útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í 12,0 milljarða króna samanborið við um 12,7 milljarða á sama tímabili 2017. Þetta er rúmlega 5% samdráttur í krónum talið á milli ára en tæp 10% sé tekið tillit til gengis krónunnar. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan, má samdráttinn nánast alfarið rekja til silungs (um 24% samdráttur) en tæplega 4% aukning er á útflutningsverðmæti eldislax á tímabilinu.

Um 5,5% af verðmæti sjávarafurða
Hlutur eldisafurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur stóraukist á undanförnum árum og mun vafalítið halda áfram að aukast á næstu árum. Þannig var hlutfallið rúmlega 1% á fyrstu 11 mánuðum ársins 2010, stökk upp fyrir 2% árið 2014 og í fyrra var það um 7%, líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Útflutningsverðmæti eldisafurða, í samanburði við sjávarafurðir, hefur þó verið nokkuð minna í ár en í fyrra, (5,5%). Skýrist það að miklu leyti af sjómannverkfallinu í upphafi árs 2017, sem gerði það að verkum að útflutningsverðmæti sjávarafurða var minna á árinu. Hvað sem tímabundnum sveiflum líður bendir allt til þess að leitnin sé upp á við, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða
Hagstofan birtir á miðvikudag fyrstu tölur um vöruskipti í desember og þar með verður komin fyrsta vísbending um heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2018. Þar er útflutningur eldisafurða ekki sundurgreindur þar sem hann er flokkaður með landbúnaðarafurðum, en tölur þess efnis munu líta dagsins ljós 31. janúar.

Tölurnar sem Hagstofan birti í morgun um útflutningsverðmæti sjávarafurða í nóvember ríma vel við bráðabirgðatölur. Var útflutningsverðmæti sjávarafurða 20,3 milljarðar króna í nóvember og á fyrstu 11 mánuðum ársins 2018 var það komið upp í rúma 218 milljarða króna. Þetta er rúmlega 19% aukning á milli ára í krónum talið en rúmlega 15% í erlendri mynt þar sem gengi krónunnar var rúmlega 3% veikara á fyrstu 11 mánuðunum 2018 samanborið við sama tímabil 2017. Spá Seðlabankans sem birt var í nóvember gerði ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða myndi aukast um 20% að nafnvirði árið 2018 frá fyrra ári. Ef sú spá á að rætast þarf útflutningsverðmæti sjávarafurða að vera 17 til 18 milljarðar í desember. Verður því spennandi að sjá tölurnar á miðvikudag í ljósi þessa.