Opið bréf til Landverndar

Sigurður Pétursson, stofnandi Arctic Fish og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar skrifar.

Opið bréf:
Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar,
Ég heiti Sigurður Pétursson, stofnandi Arctic Fish og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar fyrirtækisins, en einnig líffræðingur og umhverfissinni sem ólst upp á Vestfjörðum og á ég mínar ættir að rekja þangað.
Ástæða þessa bréfs er ósk um að fá með þér fund til þess að öðlast betri skilning á verkefnavali Landverndar og kynna fyrir þér starfsemi Arctic Fish á Vestfjörðum. Ég hef fylgst með starfi ykkar lengi og verið þátttakandi í verkefnum sem tengist starfsemi ykkar en á erfitt með að skilja verkefnaval ykkar að undanförnu.
Ég er meðvitaður um stefnu ykkar um „að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi.“ Í ljósi þessa er erfitt að skilja markmið með kæru ykkar til ESA á því að Alþingi samþykkti að veita Sjávarútvegsráðherra sambærilega heimild og Umhverfisráðherra hefur nú þegar varðandi framlengingu fiskeldisleyfa.
Vestfirðir hafa fyrir mörgum árum mótað sér stefnu um að vera stóriðjulaus landshluti, eru umhverfisvottaðir í samræmi við EarthCheck og því eru umhverfismál mikilvæg Vestfirðingum.
Fiskeldi í sjó er matvælaframleiðsla sem er ein sú umhverfisvænasta sem völ er á (sjá skýrslur t.d. frá FAO) með mjög lágu kolefnisfótspori. Arctic Fish er auk þess vottað í samræmi við ASC (Aquaculture Stewardship Council) staðalinn sem er strangasti umhverfisstaðallinn fyrir laxeldi sem völ er á. Þá hefur Alþingi skilgreint Vestfirði sem svæði fyrir fiskeldi í sjó.

Við stöndum frammi fyrir mörgum brýnum verkefnum á sviði umhverfismála og auðlindanýtingu. Nýverið kom út skýrsla frá Hagstofu Íslands sem sýnir að koltvísýringslosun er hæst á Íslandi í samanburði við nágrannaríkin og það má m.a. rekja til flugsamgangna. Ég sé ekkert hvorki í ársskýrslu ykkar né á heimasíðu um verkefni til þess að mæta þessum vanda þó að vísu sé nefnd þátttaka ykkar í „aðgerðamiðuðu loftslagsverkefni með íslenskum sveitarfélögum sem miðar að því að aðstoða þau við að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda.“ Væri ekki ráð að beina kröftunum að helsta umhverfisvanda okkar þjóðar sem tengist loftmengun og mæta aukinni útlosun gróðurhúsaloftegunda með kolefnisjöfnun?
Ef litið er til nærumhverfis á höfuðborgarsvæðinu þá falla þar til 240 kg af sorpi á hvern íbúa á ári og af þeim eru 190 kg óflokkuð. Á síðasta ári komu 135 skemmtiferðaskip á höfuðborgarsvæðið sem er tvöföldun á 10 árum og öll brenna þau olíu í landlegu frekar en að nota rafmagn og í raun virðast ekki vera mörg verkefni hjá Landvernd sem snúa að okkar stærsta atvinnuvegi, ferðamannaiðnaðar. Um Faxaflóasundið ferðast skip með kol sem notuð eru í málmiðnaði hér við land og ekki hef ég orðið var við hávær mótmæli Landverndar í þessum málaflokki heldur.
Ég get í raun haldið áfram að fjalla um umhverfismál og verkefni tengd þeim enda málefnið mér kært, en hefði fremur vilja ræða það á fundi okkar. Einnig langar mig að vita hvort horft sé til alþjóðlegra markmiða líkt og þau sem stofnanir Sameinuðu Þjóðanna hafa sett sér þegar umhverfisverkefni Landverndar eru valin?

Kveðja,
Sigurður Pétursson