Karmenu Vella framkvæmdastjóri umhverfis- og sjávarútvegsmála Evrópusambandsins segist vera staðráðinn í að auka fiskeldi innan ESB. Nú sé tími kominn til að stuðla að frekari uppbyggingu þess.
Í frétt um málið á vefsíðunni FISHupdate er vitnað til nýlegra ummæla Vella um að íbúafjöldi jarðarinnar stefni í 10 milljarða árið 2050 og að þar með muni eftirspurn eftir próteini aukast um 70% frá því sem nú er. Þetta aukna próteinmagn verði m.a. að koma frá fiskeldi. „Við verðum að halda áfram að byggja upp sjálfbærar fiskveiðar en ef við ætlum að framleiða meiri fisk verður hann að koma frá fiskeldi,“ segir Vella. „Í samráði við aðildarþjóðir ESB vinnum við núna að því að einfalda leyfisveitingar fyrir fiskeldi og hvetja til frekari fjárfestinga í geiranum.“
Vella segir ennfremur að þökk sé styrkjum frá ESB hafi nýsköpun stöðugt aukist í fiskeldinu. Hann nefnir tækninýjungar á borð við samrækt, það er samtvinnuð ræktun grænmetis og eldisfiska og t.d. nýja markaði fyrir hliðarafurðir fiskeldis á borð við snyrtivörur, lyf og fæðubótaefni.