Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað beiðni um að fresta réttaráhrifum af þeim úrskurðum nefndarinnar, sem fella úr gildi starfs- og rekstrarleyfi Fjarðalax ehf og Arctic Sea Farm fyrir samtals 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Nefndin vísar til þess að ráðherra fari með yfirstjórn mála: „Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja að æðra stjórnvald sem jafnframt fer með yfirstjórn málaflokka, þ.e. ráðherra, hafi heimild til frestunar réttaráhrifa ákvarðana sinna og úrskurða, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Vafi leikur hins vegar á heimildum hliðsettra stjórnvalda, s.s. úrskurðarnefnda, til slíkrar frestunar.“ Hér má sjá úrskurð nefndarinnar.