„Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu.“
Þetta kemur fram í facebook-færslu Ólafs Sigurgeirssonar lektors við Háskólann á Hólum. Færsla hans er í framhaldi af umræðu sem skapaðist á facebókarþræði LF þar sem vísað var í viðtal við Ólaf í landsmálablaðinu Feyki. Hér að neðan fer færsla Ólafs í heild sinni með millifyrirsögnum LF.
Það er fráleitt að allir líffræðingar eða vísindastofnanir séu samdóma eða einróma um áhrif eldislaxa á villta laxastofna.
„Ekki hefur enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt“
Á árunum 1985-1987 varð mikið hrun í laxastofnum í N-Atlantshafi, eins og sjá má á aflatölum. Svo víðtækt hrun er eðlilega helst útskýrt með því að krappar og
afdrífaríkar breytingar hafi orðið á lífsskilyrðum í hafi, en ekki er mikið um beinar mælingar sem sína orsakirnar. Þeir sem nenna geta skoðað hvað laxeldið var mikið þá. Árið 1991 koma Ketil Hindar, Ryman og Utter fram með þá kenningu að eldislax muni útrýma villtum laxastofnum sleppi hann úr haldi, m.a vegna þess að erfðabreytileiki stofna myndi minnka og einnig „fitness“ (lífgirni). 27 árum og mörgum milljörðum síðar hefur ekki enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt. Það hefur hvergi verið hægt að sýna fram á að eldislax hafi útrýmt villtum laxastofnum (ekki einu sinni í Voss). Við svo dramatíska fullyrðingu hefur víðast hvar verið auðvelt að afla fjár til slíkra rannsókna, og kannski er það mergurinn málsins? Hluti af rannsóknarstarfinu hefur verið að útbúa líkön til að lýsa hugsanlegum áhrifum erfðablöndunar og hlutfalli eldislaxa af hrygningarfiski á afdrif erfðasemsetningar villtra stofna. Í því ljósi er athygisvert að skoða saman greinar Hindar et al. 2006 og Castellani et al 2018, en í hinni síðari er niðurstaða módelsins að 5-10% innblöndun eldisfisks verði vart merkjanleg og afturkræf á stuttum tíma. Hindar et al. sjá það svartara. Í því samhengi er einnig vert að nefna að rauða strik áhættumats Hafrannsóknarstofnunar í sínu reiknidæmi er 4%! (Og úr því minnst er á þann reiknigjörnig er einnig vert að nefna að þar er reiknað með 15% kynþroska fiska í síðbúnu stroki – þrátt fyrir að mælingar og allar reynslutölur, endurtek-MÆLDAR NIÐURSTÖÐUR- sýni að kynþroski eldislaxa sé á bilinu 0-3%!!)
Eldislax hefur verulega slakari æxlunarárangur
Nokkrar megin rannsóknir hafa verið mikilvægastar um lífslíkur. Árnar Imsa í Noregi og Burrishool á Írlandi voru útbúnar á níunda áratugnun sem rannsóknartæki hvar reynt var að skapa eins náttúruleg skilyrði og hægt var, með annmörkum þó, í þeim tilgangi að skoða áhrif erfðablöndunar milli villtra laxa og eldislaxa, einkum afdrif og lífslíkur afkvæma þeirra og blendinga þar á milli. Niðurstaðan er að eldislax hefur verulega lakari æxlunarárangur, lífslíkur seiða í ánni fram að sjógöngubúningi eru mun minni og ratvísi úr hafi er skert, hvort sem seiðum er sleppt eða hrogn eru grafin. Seiði af eldisuppruna sem lifa geti þó vaxið hraðar er hrein villiseiði þó lífslíkur séu í heild skertar. Þeir sem gerðu þessar tilraunir og mest hafa skrifað um þær (McGinnity ofl. 1998/2003, Fleming, ´96, ´97, ´00; og Bror og Nina Jonson) ræða í diskussjón hvort það geti leitt til þess að seiði af eldisuppruna geti þar með haft ruðningsáhrif á villt seiði, og eins og það er gjarnan orðað: ….it may have effect on the wilde…Athyglisvert er að í seinni tíma greinum annara höfunda er orðinu -may- sleppt þó engar staðfestar mælingar sýni að það eigi rétt á sér.
Mestar lífslíkur ef lax sleppur smár að vori
Önnur mikilvæg rannsóknarsería var gerð undir forystu Ove Skilbrei og náðu fram á siðasta áratug. Þær miðuðu að því að meta hver afdrif eldislaxa yrðu töpuðust þeir úr kvíum,- á ýmsum stigum eldis og á ýmsum árstíma. Niðurstöðurnar sýna að mestar líkur eru á að lax lifi af í villtri náttúru og eigi möguleika á að verða kynþroska og ganga upp í ár, ef hann sleppur smár að vori (nýútsett smolt). Lax yfir 200g á afar litla möguleika á að komast af og verða kynþroska. Þetta er í samræmi við fjölda annara rannsókna sem sýna að það eitt að lifa einhvern tíma í eldisstöð (af villtum- eða eldisuppruna) hefur veruleg áhrif á lífslíkur og ratvísi. Það þekkjum við vel hér á endurheimtuhlutfalli framleiddra gönguseiða.
Laxastofnar standa einna sterkast í Noregi
Vert er að hafa í huga að Imsa- og Burrishool tilraunirnar voru gerðar 1994-2000. Síðan þá eru nokkrar kynslóðir kynbóta á eldislaxi sem hafa gert hann að enn meira húsdýri, sem án efa hafa áhrif á lífslíkur í náttúrunni, ratvísi og æxlunarárangur. Ágætt dæmi sem er býsna skýr vísbending er fjöldi stangveiddra eldislaxa í 6 ám í Þrándheimsfirði. Þó tillit sé tekið til fjölda sloppinna eldislaxa í Noregi er þróunin býsna brött niðurávið. Myndin sem fylgir sýnir þessa þróun (heimild:https://www.vetinst.no/…/samarbeidsprosjektet-elvene…).
Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu. Hvernig ætla gagnrýnendur laxeldis í kvíum að útskýra þá staðreynd? Vekur það engar spurningar í þeirra hugum?