Bæjarráð Fjarðabyggðar "Það er óásættanlegt að fyrirtæki sem vill fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé búið að vera í umsóknarferli í sex ár án þess að niðurstaða sé í sjónmáli"

„Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012.“  – Þannig er komist að orði í nýrri  bókun bæjarráðs Fjarðarbyggðar og sem birtist  á heimasíðu sveitarfélagsins núna 11. september. Bókunin fer hér á eftir:

BÓKUN BÆJARRÁÐS VEGNA ÚTGÁFU LAXELDISLEYFA

Bæjarráð Fjarðabyggðar vill ítreka fyrri bókun sína um útgáfu leyfa í tengslum við laxeldi.

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Það er óásættanlegt að fyrirtæki sem vill fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé búið að vera í umsóknarferli í sex ár án þess að niðurstaða sé í sjónmáli og virðist að greinin sitji ekki við sama borð hér og í öðrum landsfjórðungum. Eðlilegt er að sú umsókn taki mið af lögum og reglum sem í gildi eru og þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og lögð fram. Í samræmi við ályktun SSA 2018 leggur Fjarðabyggð áherslu á mikilvægi þess að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum. Fiskeldi getur orðið ein af stoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og þarf líkt og aðrar atvinnugreinar starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur stjórnvöld til þess að afgreiða þau mál sem beðið hafa afgreiðslu um árabil og hafa verið tafin ítrekað á grundvelli afturvirkni og jafnvel ólögmætra sjónarmiða. Jafnframt mun bæjarráð óska eftir fundi með Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni laxeldis í Fjarðabyggð.