Laxeldisfyrirtækið AkvaFuture hefur lagt fram matsáætlun fyrir fiskeldi í lokuðum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. AkvaFuture stefnir á 6.000 tonna eldi á fjórum stöðum í Djúpinu. Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol svæðisins og telur að þar sé hægt að framleiða allt að 30.000 tonnum á ári.
Í tilkynningu um málið frá AkvaFuture er haft eftir Rögnvaldi Guðmundssyni framkvæmdastjóra AkvaFuture að kostir lokaðra sjókvía séu umtalsvert meiri en opinna kvía.
„Við höfum fengið staðfest að þessi tækni kemur alfarið í veg fyrir að laxalús skaði eldislaxinn. Jafnframt er dregið stórlega úr umhverfisáhrifum laxeldis því með auðveldum hætti má safna upp botnfalli frá eldinu,“ segir Rögnvaldur.
Þá kemur einnig fram í máli hans að með lokuðum kvíum er nánast alfarið komið í veg fyrir að lax sleppi úr kvíunum nema í mestu hamförum eða vegna mistaka við flutning á laxinum.
AkvaFuture er dótturfélag norska fyrirtækisins AkvaDesign AS sem hannar hinar lokuðu kvíar. Jafnframt rekur annað dótturfélag AkvaDesign laxieldi í lokuðum kvíum í Brönnöysund í Noregi.