Ekkert lát hefur verið á verðlækkunum á eldislaxi undanfarnar vikur. Á markaðsvefnum fishpool.eu er verðið nú komið rétt undir 50 nkr. á kíló. Í maí mánuði s.l. fór verðið hinsvegar rétt yfir 80 nkr. á kíló. Nemur lækkunin því næstum 40% á þessu tímabili.
Heimsmarkaðsverð á eldislaxi er mjög næmt fyrir breytingum á framboði og eftirspurn. Framboðið frá í vor hefur verið nokkuð umfram eftirspurn en aukið framboð má að stærstum hluta rekja til þess að seinnipart vetrar og fram á sumar var mjög heitt veður um norðanverða Evrópu sem aftur jók vaxtarhraða laxsins.
Góðu fréttirnar fyrir framleiðendur á eldislaxi eru að framvirkir samningar gera ráð fyrir að verðið fari aftur að hækka fram að áramótum. Þannig er verðið í framvirkum samningum 67.5 nkr. á kíló í desember n.k.