Færeyingar að semja um tollfrjálsan fisk til Rússlands

Færeyingar stefna að því að gera fríverslunarsamning við Rússa á næsta ári. Með því ætla þeir að tryggja stöðu sína sem stærsti erlendi innflytjandi á fiski til Rússlands.

Færeyingar urðu stærsti erlendi innflytjandinn á fiski til Rússlands á síðasta ári en fram að því voru Norðmenn númer eitt þeim lista. Rússar settu hinsvegar viðskiptahömlur á Norðmenn árið 2014 og eru þær enn við lýði.

Færeyingar hafa stóraukið innflutning sinn á fiski, þar með talið eldislaxi, til Rússlands allt frá árinu 2013. Ástæðan fyrir því var að ESB beitti Færeyjar viðskiptahömlum það ár vegna deilna um kvóta á Norður-Atlantshafi m.a. á makríl.

„Þetta olli okkur miklum efnahagslegum vandræðum en þá komu Rússar okkur til bjargar og juku verulega viðskiptin við okkur,“ segir Poul Michelsen utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja í samtali við Reuters. Michelsen segist stefna að því að undirrita fríverslunarsamning við Rússa á næsta ári.

Mikil uppsveifla hefur verið í færeysku efnahagslífi undanfarin ár, uppsveifla sem einkum hefur verið drifin áfram af stóraukinni framleiðslu á eldislaxi. Þannig var hagvöxtur Færeyja 7% árið 2016.