Hundruð milljóna útflutningur á eldislaxi til Bretland

Fréttaskýring:

Umtalsverðir hagsmunir undir í Brexit:

-eftir Friðrik Indriðason

Íslensk stjórnvöld og Norðmenn, okkar helstu keppinautar á eldislaxmörkuðum, vinna nú á fullu við samninga um aðgang að breska markaðinum í kjölfar Brexit. Þeim er umhugað um að slíkir samningar liggi fyrir áður en Brexit skellur á.

Hagsmunir íslenskra laxeldisfyrirtækja eru umtalsverðir í þessu máli enda fluttu þau út lax fyrir tæplega 700 milljónir kr. til Bretlands á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs. Um er að ræða yfir 10% af heildarsölunni til Evrópuríkja. Markaðurinn fyrir eldislax í Bretland hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár og ekki er útlit fyrir að slíkt breytist í náinni framtíð. Íslensk laxeldisfyrirtæki hafa fullan hug á að stækka hlutdeild sína á breska markaðinum.

„Brexit felur í sér bæði áskoranir og tækifæri fyrir okkur Íslendinga og utanríkisþjónustan rær nú að því öllum árum að tryggja hagsmuni Íslands við þessar aðstæður,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

„Bretar eru meðal okkar nánustu bandamanna og stærstu viðskiptaaðila. Við viljum búa svo um hnútana að hagsmuna þjóðarbúsins sé gætt, meðal annars okkar stöðu sem aðildarríkis EES, og samhliða því leitum við allra leiða til að grípa þau tækifæri sem í þessu kunna að felast,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Við horfum til þess að þegar Bretar fara að semja um fríverslun á eigin spýtur þá muni losna um mikla krafta sem við viljum nýta. Ég hef talað fyrir þessum sjónarmiðum við bresk stjórnvöld og held að óhætt sé að segja að þeim er vel tekið.“

Óvissa ríkir um málið

Fjallað var um málið á stórri ráðstefnu Norska sjávarafurðaráðsins (NSC) í London í síðasta mánuði. Yfir 200 manns sóttu ráðstefnuna þar á meðal frá Noregi, Bretlandi, Frakklandi og Rússlandi. Í umfjöllun erlendra fréttamiðla, eins og FISHupdate og Intrafish kemur fram að Norðmönnum sé mjög umhugað um að forðast biðstöðu eða flöskuháls á breskum fiskmörkuðum í kjölfar Brexit með því að gera samninga um óbreytt aðgengi að þessum mörkuðum áður en Brexit skellur á. Í þessum efnum njóta þeir fulls stuðnings forráðamanna á fyrrgreindum mörkuðum sem er umhugað um að ekki komi til tolla eða annarra hindrana á innflutningi á fiski frá öðrum þjóðum í kjölfar Brexit.

Á ráðstefnunni kom m.a. fram að útkoman úr yfirstandandi Brexit-samningum milli Bretlands og ESB er í óvissu en þeim á að vera lokið í október á þessu ári. Fyrir utan markaðsmálin þarf einnig að semja m.a.a um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir milli Bretlands og annarra ESB ríkja og flæði starfsfólks hjá fiskvinnslu- og fiskeldisfyrirtækjum til og frá Bretlandi. Samanlögð velta breskra fiskvinnslufyrirtækja er um 4,2 milljarðar punda á ári og alls starfa um 14.000 manns hjá þessum fyrirtækjum. Stórt hlutfalls þessara starfsmanna koma frá ESB ríkjum utan Bretlands.

Mikilvægur markaður í framtíðinni

Kristján Matthíasson forstjóri Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtækis landsins, segir að Bretland sé mikilvægur markaður fyrir íslenskan eldislax í framtíðinni. Sem stendur sendir Arnarlax hluta af afurðum sínum til Bretlands.

„Markaðurinn í Bretlandi hentar okkur ágætlega út af greiðum flutningum þangað,“ segir Kristján í samtali við Fiskeldisblaðið. „En sem stendur flytjum við mun meira af afurðum okkar til annarra Evrópulanda og til Bandaríkjanna. Við höfum hinsvegar mikinn áhuga á að auka við umsvifin í Bretlandi enda vaxandi markaður þar fyrir eldislax. Því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi vel á spilunum þegar kemur að Brexit og samningum í kringum það mál.“

Á vefsíðu Hagstofunnar kemur fram að Ísland flutti út eldislax fyrir 686 milljónir kr. (fob-verð) á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs. Miklar sveiflur voru á þessum útflutningi milli mánaða eða allt frá engum í júlí og september og upp í rúmar 200 milljónir kr. í nóvember. Til Evrópu í heild var hinsvegar fluttur eldislax frá Íslandi að verðmæti tæpir 6 milljarðar kr. á fyrrgreindu tímabili.

Fundað í Osló

Hvað aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna Brexit varðar er skemmst að minnast þess að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti nýlega fundi í Osló með þarlendum ráðherrum. Greint er frá þessu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Þar segir að á fundi sínum með Torbjørn Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, tók Guðlaugur Þór upp fríverslunarmál, ekki síst málefni EFTA og samvinnu Íslands og Noregs. Þá ræddu ráðherrarnir áhrif Brexit á fríverslunarumhverfið og EFTA. Guðlaugur Þór átti einnig fund með Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs í þessari ferð.

Stærsta málið

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fiskeldisblaðsins um málið segir m.a.: “ Útganga Bretlands úr ESB (Brexit) er afar brýnt og umfangsmikið verkefni fyrir íslenska stjórnsýslu og snertir það öll ráðuneyti Stjórnarráðs Íslands. Er hér um að ræða eitt stærsta einstaka viðfangsefni á sviði utanríkismála næstu misserin og hvað bein áhrif þess á stjórnsýsluna varðar er nærtækast að líkja viðfangsefnunum er tengjast Brexit við framkvæmd EES-samningsins sem ratar inn á borð allra ráðuneyta.

Brýnt er að halda áfram því frumkvæði sem náðst hefur á undanförnum mánuðum hvað varðar að tryggja sömu eða betri viðskiptakjör við Bretland eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra og fulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa, allt frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu (Brexit) voru kunnar í júní 2016, sýnt ríkt frumkvæði í samskiptum við breska ráðamenn og bresku stjórnsýsluna með þessi stefnumið að leiðarljósi. Þá hefur ráðherra ítrekað hvatt til þess að EFTA-ríkin búi sig sameiginlega undir þær breytingar sem framundan eru.“

Flókin staða í breskum stjórnmálum

Veik staða Theresu May forsætisráðherra Bretlands hefur sett samningaviðræðurnar um Brexit í uppnám. Mikið hefur verið deilt um hvort Brexit eigi að vera „mjúkt“ eða „hart“ og skiptist þingflokkur Íhaldsflokksins í tvær fylkingar hvað það varðar. Nú hafa báðar þessar fylkingar gert kröfu um að May skýri betur sín sjónarmið um hvað hún vill í þessum efnum. Annars er henni hótað tillögu um vantraust á breska þinginu. Í blaðinu The Guardian segir nýlega að þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem aðhyllast hart Brexit séu í opinni uppreisn gegn May. Þeir hörðu segja að May stefni að Brino en ekki Brexit en Brino stendur fyrir Brexit In Name Only.

Svo virðist sem May hafi ekki neina haldbæra stefnu þegar kemur að Brexit. Það vakti athygli að þegar May hitti Angelu Merkel þýskalandskanslara á Davos ráðstefunni nýlega urðu orðaskipti þeirra að brandara þar sem Merkel gerði lítið úr May. Merkel sagði fréttamönnum að May hefði beðið hana um að gera sér tilboð. Merkel svaraði þvi til að…“það eruð þið sem eruð að yfirgefa ESB, við þurfum ekki að gera ykkur tilboð. Segju mér hvað þú vilt?“ Þessu hafi May svarað með því að endurtaka setninguna, „Gerðu mér tilboð.“

Fylgjast grannt með

„Síðustu vikur og mánuði hefur utanríkisráðuneytið fylgst grannt með þróun mála í viðræðum Breta og ESB um bráðabirgðafyrirkomulag og meginforsendur útgöngusamnings“, segir í fyrrgreindu svari utanríkisráðuneytisins. Hefur ráðuneytið átt náið samráð við bresk stjórnvöld, fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja þess, auk virks samráðs við EES-EFTA ríkin.

„Þannig hefur utanríkisráðuneytið unnið eftir tvískiptri stefnu er varðar málefni útgöngu Breta úr ESB. Annars vegar að gæta þess að hagsmunir EES-EFTA ríkjanna á innri markaðinum verði ekki fyrir borð bornir í bráðabirgðasamkomulagi Breta og ESB sem gilda mun eftir mars 2019. Hefur þó nokkurt átak átt sér stað undanfarnar vikur í því skyni að kynna sameiginlega afstöðu EES-EFTA ríkjanna um að tryggja aðkomu og hagsmuni okkar í tengslum við útgöngusamninginn,“ segir í svarinu.

Utanríkisráðherra hefur reifað stefnumið Íslands í þessa veru á fundum sínum með Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, Michael Gove, ráðherra umhverfismála, og Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands. Þá hafa embættismenn átt í stöðugu samtali við bresku stjórnsýsluna um sömu mál.