Benedikts Bóasar Hinrikssonar blaðamaður skrifar Bakþanka Fréttablaðsins í dag þar sem hann mælir sérstaklega með eldislaxi í sushi en hann er notaður í sushi matreiðslu um allan heim enda einstaklega hollur og góður. Hér er pistill Benedikts úr Bakþönkum Fréttablaðsins.
„Það er fyndið að fylgjast með umræðum um laxeldi. Stangveiðimenn eru alveg brjálaðir og sækja hart fram en laxeldismenn verjast af stakri snilld og hrekja hvert orð sem laxveiðimenn láta út úr sér. Laxveiðimenn eru tilfinningaverur. Það er oft talað um að karlmenn eigi bágt með að tjá tilfinningar sínar en ef það er eitthvað sem ég hef lært frá því fyrsti laxinn var settur í kví er að laxveiðimenn eru tilfinningaverur. Þeir finna til vegna hins íslenska laxastofns. Slíkt ber að virða. Ég heyrði í góðum manni sem hefur engra sérstakra hagsmuna að gæta. Hefur áhuga á að hnýta flugur og gista í veiðihúsum. En honum finnst sushi gott. Sérstaklega í Færeyjum. Þar er yfirburða sushi svo því sé haldið til haga. Eldislaxinn þar er stórkostlegur.
Hann benti mér á eina ansi góða staðreynd. Arnarlax má selja sitt til Whole Foods í Ameríku. Það eru aðeins örfá eldi í heiminum sem fá þann stimpil. Það eru mjög góð meðmæli. Ég skoðaði aðeins hvað það þýðir að hafa þennan stimpil á sér en það eru ótrúlega strangar kröfur sem Whole Foods setur upp. Það má ekki nota nein sýklalyf, ekki nota lúsaböð, kvíarnar mega ekki innihalda kopar eða önnur spillandi efni, það er bannað að hafa meira en 20 kíló af fiski á hvern rúmmetra – í kvíum Arnarlax eru 16 kíló á rúmmetrann – og fóðrið verður að vera vottað og fleira og fleira.
Ég ætla því að vera stoltur af laxeldi á Íslandi. Við eigum jú að vera stolt af okkar afurðum. Og ég ætla að taka afstöðu með vísindamönnum en ekki tilfinningaverum. Því ef tilfinningar ráða för en ekki staðreyndir þá getur maður ekki annað sagt en Guð hjálpi okkur. Og hann er sannarlega til.“