Metár var í útflutningi á norskum sjávarafurðum í fyrra. Eldislax var 68% af heildarverðmæti þeirra, eða yfir 800 milljarða kr., og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra.
Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no
kemur fram að í heildina fluttu Norðmenn út 2,6 milljónir tonna af sjávarafurðum á árinu 2017 að verðmæti 95,5 milljarða norskra kr. eða yfir 1.200 milljarða kr. Eldislax var langstærstur hluti þessara verðmæta eða 68% sem samsvarar yfir 800 milljörðum kr. Miðað við metárið 2016 er um 3% aukningu að ræða.
Í fréttinni segir að aukningin komi að mestu frá aukinni sölu til Asíu og Bandaríkjanna en útflutningurinn til ESB stóð í stað miðað við árið 2016. Það eru markaðir í Bandaríkjunum, Kína og Víetnam sem standa á bakvið mestu aukninguna í þessum útflutningi en salan á þeim jókst um 8% milli ára.
Milljón tonn af eldislaxi
Alls fluttu Norðmenn út eina milljón tonna af eldislaxi í fyrra og hefur magnið aldrei verið meira í sögunni. Að meðaltali fengust um 60,3 norskar kr. fyrir kílóið af ferskum heilum laxi eða um 730 kr. á árinu. Miklar verðsveiflur einkenndu árið en verðið sveiflaðist frá 72 norskum kr. per kíló í janúar og niður í 50,5 norskar kr. í nóvember.