Laxeldisstöðvar í Skotlandi eru á leið með að setja nýtt sölumet en reiknað er með að sala þeirra í ár fari yfir 500 milljónir punda eða ríflega 85 milljarða króna. Þetta er ívið meiri sala en á metárinu 2014.
Fjallað er um málið á vefsíðunni FISHupdate. Þar kemur m.a. fram að á fyrstu níu mánuðum ársins hafi salan á eldislaxi numið 483 milljónum punda en það er 56% aukning frá fyrra ári.
Scott Landsburgh, formaður Sambands laxeldisstöðva í Skotlandi (SSPO) segir að það stefni í að skoskar laxeldisstöðvar verði orðnar stærsti matvælaútflytjandi Breta í lok þessa árs.
Fram kemur í máli Landsburgh að ólíklegt sé að þessi mikla sala muni aukast á næsta ári frá því sem nú er. Hinsvegar geti árið 2019 orðið gott vegna nýrra eldisstöðva sem áformað er að taka í notkun það árið.
„Ég reikna með að árið 2019 verði frábært hvað aukna framleiðslu varðar,“ segir Landsburgh. „En á næsta ári minnkar framleiðslan aðeins eða stendur í stað.“
Fiskeldi í Skotlandi mun verða í sviðsljósinu á næsta ári þar sem skoska þingið hefur ákveðið að hefja rannsókn á því. Þar var þingið að mæta kröfum náttúruverndarsamtakanna Salmon and Trout Conservation Scotland. Áður en rannsóknin hefst er reiknað með að SSPO, í samvinnu við sjávarútvegsráð Skotlands, muni leggja fram stefnumótun til 10 ára í fiskeldinu.
Landsburgh gerir að umræðuefni neikvæða umfjöllun fjölmiðla um fiskeldi í Skotlandi. Hann segir að SSPO sé að gera sitt besta til að laga þau vandmál sem uppi eru en það taki tíma. Reiknað er með að rannsókn þingsins hefjist í mars á næsta ári.