Vísbendingar eru um að upphaf fiskeldis megi rekja um 6.000 ár aftur í tímann. Fólk sem kallað er Gunditjmara og bjó þá í Viktoríuríki í Ástralíu ræktaði sennilega ála sér til matar. Á þessu svæði finnast fornminjar sem benda til að áll hafi verið ræktaður á um 100 ferkílómetra stóru svæði í grennd við Condah vatnið.
Gunditjmara fólkið veitti vatni úr Condah í flókið kerfi skurða og stífla. Í þessu kerfi voru svo gildrur sem vafðar voru úr sefgrasi eða trjágreinum til að fanga ála og halda þeim föngnum. Þannig var hægt að borða ál allt árið.
Vitað er fiskeldi var búgrein í Kína fyrir um 2.500 árum síðan. Þegar sjatnaði eftir flóð mátti oft finna vatnakarfa sem lokuðust inni í tjörnum og pollum en það var upphafið að fiskeldi Kínverja. Þeir sem stunduðu karfaeldið í Kína notuðu m.a. úrgang frá silkiormum til að fæða karfann. Á valdatíma Tang ættarinnar varð heppileg genabreyting í karfanum þess valdandi að gullfiskar urðu til.
Af öðru eldi má nefna að Japanir notuðu bambusstangir til að rækta þang og Rómverjar stunduðu fisk- og ostrueldi í grunnum innfjörðum um 100 árum fyrir Krist.
Fyrstu munkaklaustur í Evrópu notuðu rómverskar aðferðir við fiskeldi og það náði töluverðri útbreiðslu á miðöldum í álfunni. Nefna má að fiskitjarnir frá 15. öld við Trebon Basin í Tékklandi eru á heimsminjaskrá UNESCO.
Heimild: Wikipeida