Fullvinnsla á laxi getur skapað 10.000 störf í Noregi

Sem stendur flytja Norðmenn út um 83% af eldislaxi sínum óunninn. Talið er að ef þessi lax væri fullunnin innanlands gæti slík vinnsla skapað um 10.000 ný störf í landinu.

Þetta kemur fram á vefsíðunni e25.no en upplýsingarnar byggja á nýjum tölum frá norska sjávarafurðaráðinu. Þar kemur m.a. fram að útflutingur Norðmanna á hrávörum til ESB skapi um 21.000 störf innan sambandsins, þar af kemur nær helmingur vegna fullvinnslu á eldislaxi.

Mikill munur er á tollum sem Norðmenn borga annarsvegar fyrir óunnin lax og fullunninn. Þannig leggst aðeins 2% tollur á óunnin lax en 20% tollur á reyktan lax svo dæmi sé tekið. Á vefsíðunni e24.no segir að talsmenn sjávarútvegs í Noregi þurfi að þrýsta betur á ESB að lækka tolla á unnum eldislaxi. Ef slíkt gengur ekki ættu Norðmenn að leggja meiri áherslu á útflutning á fullunnum eldislaxi til landa sem þeir hafi fríverslunarsamninga við eins og t.d. Kanda, Suður-Kóreu og Tyrklands.