Tveir norskir háskólaprófessorar, þeir Erik Slinde, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi og Harald Kyvi, prófessor við Háskólann í Bergen, skrifuðu á dögunum athyglisverða grein um laxeldismál sem birt var í dagblaðinu Aftenposten 27. apríl síðast liðinn. Hún ber yfirskriftina „Viltu bjarga villta laxinum? Leggðu þá flugustönginni.“ Greinin er um margt merkilegt innlegg í umræðuna um fiskeldi og því birtum við útdrátt úr henni hér að neðan með góðfúslegu leyfi höfunda, með viðbótum sem eiga við aðstæður hér á landi.
Nú fer sá hluti laxa, sem lifði af dvölina í sjónum, að leita upp í árnar. Flestir finna leiðina heim, en um 5% fara upp í aðra á en sína eigin. Þetta er gagnlegt til að koma í veg fyrir skyldleikaræktun, en það gerist ef of fáir fiskar eru í ánni. Úrkynjun er ógn við laxastofna eins og önnur dýr. Sumir eldislaxar sem sleppa leita einnig upp í á, sem er mjög slæmt mál að sumra sögn. En eru gen eldislaxa einhver sérstök eldislaxagen sem eru slæm, eða eru gegnin bara venjuleg, gagnleg laxagen?
Lítill hluti þeirra laxaseiða sem synda til hafs frá ánni sinni, koma til baka, stundum mjög fá. Stærsta ógnin við laxastofn í á er því veiðin í ánni.
Þess má geta að á Íslandi er yfirleitt yfir helmingur hrygningarstofns laxa veiddur og því fara líklega að minnsta kosti helmingi færri seiði til sjávar en myndu gera það ef engin væri veiðin. Yfirvöld samþykkja yfir 50% veiðiálag á lax en miða við 20% veiðiálag á þorsk, sem er margfalt frjórri tegund. Ef lokað væri á veiði úr á þá væru sem sagt um tvöfalt fleir laxar að hrygna og því enn erfiðara fyrir eldislax að komast að í hrygningu í ánni en ella.
„Því er með vissu hægt að segja að vilji maður bjarga villta laxinum, þá ætti maður að brjóta flugustöngina. Sumir segja að hægt sé að veiða fiskinn og sleppa honum svo út aftur. Það verður að teljast dýraníð, en úr því laxinn gefur ekki frá sér hljóð þá er það kannski í lagi?“
Við þetta má bæta spurningu um hve stór hluti slepptra laxa nær að taka þátt í hrygningu og hversu mikill þáttakandi í vel heppnaðri hrygningu er örmagna lax, en vitað er að lax nærist ekkert í ánni? Þessari spurningu er ósvarað.
Villtur lax er tegund sem við berum mikla ábyrgð á, ekki síst vegna þess að fiskeldi verður sífellt þýðingarmeira. Þetta á við bæði Noreg, Ísland og önnur laxeldislönd.
Það er mikilvægt fyrir framtíðina að varðveita erfðafræðilegan fjölbreytileika Atlantshaflaxins.
Þegar norskt fiskeldi byrjaði um 1970, voru menn uppteknir af þessu. Því var tekinn lax úr 40 norskum ám, frá Norður-Noregi til Oslófjarðar, sem og einni sænskri. Ein kynslóð laxa er um 4 ár og því hefur laxinn nú verið kynbættur í um 12 kynslóðir (en ekkert erfðabreyttur). Til að byrja með var kynbætt með undaneldi, með áherslu á t.d. vaxtarhraða, sem mörg gen stýra. Í seinni tíð er alið meira með tilliti til sjúkdómaviðnáms og viðnáms gegn laxalús.
Það eru ekki til nein „Eldisgen“.
Atlantshafslaxinn er milljóna ára gömul tegund sem fann leiðina til heimkynna við Norður Atlantshaf þegar ísinn hvarf fyrir ca. 10.000 árum. Vísindamenn hafa kortlagt erfðamengi laxins og birt niðurstöðuna í vísindatímaritinu Nature. Þeir fundu að sjálfsögðu ekki nein „eldislaxagen.
Einnig segir í greininni: „Í norskum ám er mikil áhersla lögð á að aflífa stóran kynþroska fisk með svokölluð „eldisgen“. Þetta er lax með gen frá öðrum ám eða lax sem sloppið hefur úr kvíum, sem hefði getað skapað aukinn lífræðilegan fjölbreytileika í ánni. Vanþekking í stjórnun ýtir þannig undir skyldleikaræktun og tap á fjölbreytileika.“
Vitað er að náttúruval er stöðugt að verki og hættir ekkert að virka ef eldislax kemur í á með villtum laxi. Það heldur miskunnarlaust áfram og velur ætíð úr þá laxa sem eru hæfastir til að lifa og hinir sem verða undir hverfa. Enda er það þekkt staðreynd að til að eldislax eigi að geta haft áhrif á villtan laxastofn þarf áreiti frá honum að vera mikið og það þarf líka að vera stöðugt yfir langt árabil. Fæstir eldislaxar lifa af slysasleppingu, kunna hreinlega ekki að bjarga sér og þeir fáu sem gera það drepast fyrsta haustið sitt í náttúrunni. Það litla hlutfall sem kemast upp í á eru einnig mun lakari þátttakendur í hrygningu en villtir laxar.
Þeir Sline og Kyvi benda réttilega á að stjórnvöld, ásamt veiðiréttarhöfum og öðrum (t.d orkufyrirtæki), hafa frá því löngu áður en fiskeldi kom til sögunnar, rekið klakstöðvar og sleppt laxaseiðum í ár, svo skiptir milljónum fiska í heild. Þetta var að langmestuleyti gert án tillits til þess úr hvaða ám klaklaxinn kom eða í hvaða ár seiðum var sleppt. Og yfirvöld segja þann fisk ekki hafa skilið eftir nein spor í erfðamengi ánna sem þeir fóru í. Skiptir þá erfðablöndun eldislaxa og villtra engu máli eftir allt saman? Þetta á ekki síður við á Íslandi en í Noregi.
Óheppileg gen?
Þeir félagar nefna einnig að hafbeit var áður stunduð í stórum stíl, bæði í Noregi og á Íslandi og víðar og milljónum seiða, af alls kyns uppruna úr hinum og þessum ám, var sleppt og rötuðu svo í hinar ýmsu ár. Hvaða erfðafræðiþekking er til í dag sem segir að gen úr laxi úr einni á séu óheppileg í hvaða annarri á sem er? Auk þess sem vitað er að um 5% laxa fara í aðra á en þeir komu úr sem seiði. Og koma þannig í veg fyrir skyldleikaræktun og úrkynjun smárra stofna.
Í greininni segir: „Rannsóknir á atferli, hrygningu, vexti, gæðum, lit og svo framvegis sýnir mun á löxum úr villtum laxi og eldislaxi. Þessir eiginleikar eru ætíð taldir jákvæðir í villtum laxi. En það má einnig segja að þeir séu jákvæðir hjá eldislaxi, sem hefur sloppið og getur skilað sínum genum í laxaá.“ Það gildir um þetta sem kemur fram hér að framan, að náttúruvalið ræður um hver lifir af, hinir lakari tapa og deyja út, hinir hæfustu lifa áfram.
Umhugsunarvert.
Mikið veiðiálag villtra laxa í ám er umhugsunarvert og má jafnvvel líta á sem umhverfisvanda. Það er tímabært fyrir stofnanir hins opinbera (á Íslandi t.d. Erfðanefnd Landbúnaðarins og Hafrannsóknarstofnun) að skoða gagnrýnið veiðistjórnun laxveiðiáa.
Einnig gæti ráðuneyti málaflokksins spurt stofnanir sínar um markmið við varðveislu genafjölbreytileika og hvaða mælanlegu stærðir eru notaðar til að ná þeim hvað varðar gen villtra dýrategunda, ekki bara fyrir lax.
Myndin sem fylgir hér (úr Journal of fish diseases eftir Torrisen ofl. árið 2013) sýnir samanburð á þróun laxveiði í löndum án laxeldis og með laxeldi og svo sömu þróun í Noregi, landinu með mest laxeldi. Ekki er að sjá að eldislax hafi eyðilagt laxveiðina í ám þar, þvert á móti er veiðiminnkunin minni þar en annars staðar. Enda er líklegt að veiðiminnkun sé af samsettum orsökum, mengun, virkjunum, hlýnun sjávar ofl. Benda má á að laxveiði á Íslandi hefur í besta falli haldið í horfinu í fjölda fiska, þótt magnið hafi minnkað vegna þess að stórlaxaveiðin hefur hrunið hér eins og víða annars staðar, óháð umfangi fiskeldis. Þetta er fyrir lítið sem ekkert fiskeldi og 40% aukningu laxveiðisvæða með byggingu laxastiga.