Klúbbur matreiðslumeistara og Arnarlax undirrituðu samstarfssamning á Kolabrautinni í Hörpu við hátíðlega athöfn. Landsliðið og fagmenn þess munu nota hágæða afurðir úr laxeldi Arnarlax við æfingar og keppni. Íslenski laxinn hefur nú þegar skapað sér sterka ímynd á alþjóðlegum mörkuðum fyrir framúrskarandi gæði.
Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins; „Það er skemmtilegt fyrir landsliðið að fá laxinn í liðið. Hann hefur fjölbreytta notkunarmöguleika reyktur og grafinn, yfir í það að vera háklassa aðalréttur á matseðlum fínustu veitingahúsa. Vinsæll í sushirétti í því margbreytilega formi. Við þekkjum afurðir Arnarlax vel og það er fyrsta flokks lax sem verður spennandi að vinna með.“
Kristian Matthíasson forstjóri Arnarlax: „Samstarf okkar við Klúbb matreiðslumeistara á Íslandi og Kokklandsliðið er spennandi verkefni og jafnframt viðurkenning á gæðum afurða okkar sem við erum mjög stolt af.“
Kokkalandsliðið keppir á heimsmeistaramóti í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg í nóvember. Liðið er skipað ungum fagmönnum sem taka þátt í því að þróa íslenskt eldhús og kynna íslenskt hráefni fyrir erlendum fagmönnum í greininni. Liðið er á lokaspretti í sínum 18 mánaða undirbúningi. Stuðningur íslenskra fyrirtækja skiptir sköpum fyrir Kokkalandsliðið og er því mikið ánægjuefni að tilkynna að Arnarlaxhefur gengið til liðs við liðið sem einn bakhjarla þess.
Lax er einhver hollasti matur sem í völ er á og eru vinsældir hans stöðugt að aukast. Í laxinum er mikið af omega-3 fitusýrum, prótíni, vítamínum eins og D-vítamíni, B12- vítamíni, A-vítamíni, joði og andoxunarefnum. Hann er ekki bara næringaríkur, hollur og góður, því laxinn er eitt umhverfisvænasta prótein sem ræktað er í heiminum.